Hádegisbíó á föstudaginn!

"Þegar viðfangsefnið streitist á móti þarf leikstjórinn að vera ákveðinn og standa á sínu."

Á föstudaginn næsta, þann 21. apríl, annan dag sumars verður haldið hádegisbíó í sýningarsal Menningarhússins Bergs. 


Bókasafnið á Dalvík hefur um nokkurt skeið staðið fyrir hádegisfyrirlestrum í Bergi en að þessu sinni verður hádegissamkoman með örlítið breyttu sniði og sýnum við nú stutta heimildarmynd í stað hefðbundins fyrirlesturs. Myndin fjallar um mann sem eflaust margir kannast við úr byggðarlaginu en höfundur myndarinnar er Jón Bjarki Hjálmarsson frá Steindyrum í Svarfaðardal. Jón Bjarki lærði kvikmyndagerð í Kvikmyndaskóla Íslands og útskrifaðist af handrita og leikstjórnarbraut um síðustu jól. Jón Bjarki hefur bæði skrifað og leikstýrt kvikmyndum af ólíkum toga og þykir afar efnilegur í þeirri listgrein.Jón Bjarki höfundur og leikstjóri 

Að myndinni lokinni mun Jón Bjarki segja örfá orð um gerð myndarinnar, hugmyndirnar að baki og hugsanlega svara spurningum úr sal frá fróðleiksfúsum áhorfendum. Það er okkur sannur heiður að geta boðið ungu hæfileikafólki úr heimabyggð vettvang til að kynna verkin sín og hvetjum við bæjarbúa eindregið til að fjölmenna á þennan áhugaverða viðburð. 

Gestum er frjálst að versla sér mat og drykk hjá Helga og Helgu á Basalt og snæða í fyrirlestrarsal á meðan á sýningunni stendur. 

Allir velkomnir og að sjálfsögðu frítt inn!