„...því ég er komin heim!“

„...því ég er komin heim!“

Í langan tíma má segja að stöðugur straumur fólks hafi legið frá sveitum og dreyfbýlum til borga og stærri þéttbýla. Landsbyggðin hefur oftar en ekki þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum gegn sinni stóru systur, höfuðborginni og oft þurft að lúta í lægra haldi í þeim efnum. Á síðustu árum hefur það hins vegar aukist að fólk sæki á landsbyggðina og brottfluttir landsbyggðarbúar hugsi sér að flytja aftur í heimahagana. Í Dalvíkurbyggð, eins og annarstaðar, höfum við fjölmarga einstaklinga sem hafa flutt út fyrir bæjarmörk dalvíkur og jafnvel landssteinanna en ákveðið að flytja aftur „heim“ seinna á lífsleiðinni. 

Á föstudaginn nk. 24. febrúar kl. 12.15 - 13.00 verður fyrsti hádegisfyrirlestur ársins haldinn á vegum bókasafnsins á Dalvík. Þemað að þessu sinni er nátengt reynslu og upplifun Bjarkar Hólm nýs forstöðumanns og fannst henni kjörið að kynna sjálfa sig stuttlega með þessum hætti. Sú kynning mun þó vera í algjöru aukahlutverki því fyrirlesarar þessa hádegisfyrirlestrar verða tvær konur sem fluttu frá sínum heimahögum sem ungar konur en fluttu seinna aftur í heimabyggð og hafa nú komið sér vel fyrir í Dalvíkurbyggð. Hvað er það í samfélagi sem leyfir fólki að hafa skoðanir, jákvæðar eða neikvæðar, á því hverjir flytja inn í bæinn? Af hverju skiptir það íbúa byggðarlagsins máli? Eru allir jafn velkomnir? Það eru ótal spurningar sem koma upp í hugann og vonandi fáum við ólík sjónarhorn á þær í þessum hádegisfyrirlestri. 

Það eru þær Katrín Sif Ingvarsdóttir og Anna Dóra Hermannsdóttir sem munu segja frá sinni upplifun af því að flytja aftur „heim“ ef svo má að orði komast og rýna í þær tilfinningar sem vakna við það að snúa aftur á ákveðinn stað. 

 

Fyrirlesturinn er frá 12.15 - 13.00 fyrirlestrasal Bergs og hægt er að taka með sér mat frá Basalt inn í fyrirlestrasal. 

Allir velkomnir og hlökkum til að sjá ykkur!