Sundskáli Svarfdæla

Myndin er tekin við vígslu sundskálans árið 1929. Á myndinni miðri stendur Kristinn Jónsson (Kiddi s…
Myndin er tekin við vígslu sundskálans árið 1929. Á myndinni miðri stendur Kristinn Jónsson (Kiddi sund).

Í gær var haldinn opinn íbúafundur um framtíð Sundskála Svarfdæla. Ekki verður sérstaklega gert grein fyrir efni fundarins hér en í kjölfar líf- og uppbyggilegrar umræðu langaði mig að sýna örfáar af þeim ljósmyndum sem Héraðsskjalasafnið varðveitir og tengjast Sundskála Svarfdæla (athugið að talsvert fleiri myndir eru til á Héraðsskjalasafninu en hér birtast).

Sundskáli Svarfdæla var vígður sumardaginn fyrsta, 25. apríl árið 1929. Bygging sundskálans tók í heildina tvö ár og var að mestu, jafnvel öllu leiti, unnin í sjálfboðavinnu félaga í ungmennafélögunum í Svarfaðardal og Dalvík. Sveinbjörn Jónsson hannaði húsið og er titlaður byggingarmeistari en honum til halds og trausts var Arngrímur Jóhannesson á Dalvík yfirsmiður. 

Sundskálabyggingin er merkileg fyrir margar sakir. Má þar fyrst nefna að hún er ein af fyrstu yfirbyggðu sundlaugum landsins og þótti það hreint afrek á sínum tíma að reisa byggingu af þessu tagi í svo fámennu byggðarlagi. Byggingin er auk þess einstök sökum þess að þak hennar er steinsteypt sem þótti merkilegt á þessum tíma og lengi mætti áfram telja. 

Sundskáli Svarfdæla hefur þjónað veigamiklu hlutverki í menningarlífi Svarfdælinga og Dalvíkinga en þar voru löngum haldnar hátíðir, svo sem 17. júní hátíðarhöld og vormót. Sundskálinn var lengst af í samfelldri notkun bæði til kennslu og fyrir almenning og má leiða að því líkum að þorri fæddra og uppalinna Svarfdælinga hafi lært sín fyrstu sundtök í Sundskála Svarfdæla. Þannig er því að minnsta kosti farið með þá sem þetta ritar en ekki eru það fleiri en 24 ár síðan hún lærði að synda í Sundskála Svarfdæla undir dyggri handleiðslu Björns Daníelssonar frá Syðra Garðshorni. 

 Ég vona að þið hafið gaman af þessum myndum en þær má skoða með að þrýsta á þennan hnapp:  Sundskáli Svarfdæla