Samverustund á morgun, laugardag!

Fjölbreytta afþreyingu er að finna á Bókasafni Dalvíkur.
Fjölbreytta afþreyingu er að finna á Bókasafni Dalvíkur.

Á morgun verður haldin fyrsta Laugardags-samverustundin kl. 13.30 - 14.30 á bókasafni Dalvíkur. Í vetur (ef vetur mætti kalla) verður boðið upp á sérstakar Laugardags-samverustundir á bókasafninu, ca einn laugardag í mánuði. Samverustundirnar verða alltaf auglýstar sérstaklega í viðburðadagatali Dalvíkurbyggðar, hér á síðunni og víðar svo að vonandi ættu þær ekki að fara framhjá neinum sem vilja mæta. 

Samverustundirnar henta fólki á öllum aldri þó aðaláherslan verði á yngra fólkinu. Lagt verður upp með að bjóða upp á fjölbreytta samsuðu lestrar, leikja, hreyfingar og sköpunar. Á þessari fyrstu samverustund verður boðið upp á stutta sögustund með hálfgerðu jógaívafi. Að sögustund lokinni verður síðan áhugasömum boðið í "stjörnuskoðun" í undirgöngum bóka- og héraðsskjalasafns - eða í Stjörnugöngunum eins og þau heita núna.

Samverustundin verður í umsjá Bjarkar Hólm, forstöðumanns safnsins en börnin eru á ábyrgð foreldra eða forráðamanna á meðan á stundinni stendur. 

Samverustundin varir frá ca. 13.30 - 14.30 en það er opið á bókasafninu frá 13.00 til 16.00 og því öllum velkomið að staldra lengur við að samverustund lokinni. Bókasafnið er stútfullt af afþreyingarefni og möguleikum sem við hlökkum til að sýna ykkur í vetur. 

 

Að samverustundinni lokinni er tilvalið að staldra við á kaffihúsinu Basalt þar sem Helgi verður með eitthvað á boðstólnum fyrir alla. 

Allir velkomnir og hlökkum til að sjá ykkur sem flest.